Fara í efni

Ávarp

Árið 2019 var eins og fyrri ár nokkuð viðburðaríkt hjá embættinu.

Líkt og kom fram í ársskýrslu árið 2018 vakti embættið fyrst athygli á vaxandi vanda vegna skyndilána á því ári. Undirrituð hefur lýst yfir áhyggjum sínum af þeim hættumerkjum sem hafa verið á lofti varðandi fjárhagsvandræði ungs fólks og bent á að taka þurfi á vandanum með aukinni fræðslu og skýrara regluverki gagnvart lánveitendum. Embættið átti fulltrúa í starfshópi um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja, sem var skipaður af iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum í janúar 2019.

Í lok árs 2019 var samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum um neytendalán nr. 33/2013. Með breytingunni var m.a. kveðið á um skráningarskyldu lánveitenda og lánamiðlara sem ekki eru jafnframt fjármálafyrirtæki. Þá var kveðið á skýrar á um lagaskil og lækkun á leyfilegri árlegri hlutfallstölu kostnaðar úr 50% í 35 %. Embættið telur að með breytingunum hafi verið stigin góð skref í átt til betri réttarverndar fyrir einstaklinga á lánamarkaði. Þó þarf meira að koma til og hefur embættið lagt áherslu á að fræðsla og aðgengi að upplýsingum sé lykilatriði í því að einstaklingar geti tekið upplýstar ákvarðanir í fjármálum.

Embættið hefur í ljósi þessa ekki slegið slöku við þegar kemur að fræðslu um fjármál. Eitt af leiðarljósum embættisins í fræðslumálum hefur verið samstarf við opinbera aðila og samtök sem eiga í samskiptum við einstaklinga sem kunna að vera í fjárhagserfiðleikum og hefur það gefið góða raun.

Mikilvægt framfaraskref var stigið í þjónustu embættisins á árinu 2019 þegar ný vefsíða embættisins leit dagsins ljós. Með henni var aðgengi að hlutlausri fræðslu um fjármál aukið til muna auk þess sem framsetning á upplýsingum um starfsemi og þjónustu embættisins var útfært á nýjan hátt. Með vefsíðunni var aðgengi einstaklinga einnig aukið þannig að einstaklingar geta nú óskað beint eftir símtali við ráðgjafa. Það er von undirritaðrar að vefsíða embættisins vaxi og dafni á næstu árum og þjóni jafnt umsækjendum og öðrum sem leita sér upplýsinga um störf embættisins og fjármál einstaklinga.

Á árinu var 2019 var einnig tekið upp nýtt fyrirkomulag varðandi umsóknir til embættisins. Í stað þess að umsækjandi velji í umsókn sinni milli úrræða hjá embættinu, þ.e. ráðgjöf, greiðsluaðlögun eða fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar, er núna sótt um aðstoð vegna fjárhagsvanda. Starfsmenn embættisins greina svo og meta í samráði við umsækjanda hvaða úrræði henti best til úrlausnar á vanda viðkomandi. Með þessu leitast embættið við að bæta þjónustu við umsækjendur og að þjónustan verði markvissari og biðtími eftir úrlausn minnki.

Verkefni embættisins eru fjölmörg og í stöðugri þróun. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru. Starfsfólk embættisins býr yfir mikilli þekkingu, reynslu og ekki síst aðlögunarhæfni og langar mig að lokum að færa starfsfólki bestu þakkir fyrir vel unnin störf.