Fara í efni

Meðal hlutverka umboðsmanns skuldara er að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna.

Embættið hefur lagt rækt við þetta verkefni með ýmsum hætti, svo sem með upplýsingum á heimasíðu og á facebook síðu embættisins og með samskiptum við fjölmiðla um vanda skuldara og um þau úrræði sem í boði eru.

Embættið hefur lagt mikla áherslu á fræðslustarf  og forvarnir á síðustu árum og hefur gott samstarf myndast t.a.m við aðila sem þjónusta einstaklinga sem kunna að þurfa á aðstoð vegna fjárhagsvanda að halda. Á árinu 2019 voru haldnir 20 fræðslufundir. Embættið hefur á átt gott samstarf við þjónustumiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og boðið upp á fræðslu fyrir félagsráðgjafa og aðra starfsmenn. Þá hefur embættið einnig verið þátttakandi í hinum ýmsu verkefnum og boðið upp á fræðslu fyrir þátttakendur og fagaðila. 

Ný vefsíða

Í mars 2019 var lögð lokahönd á vinnu við nýja vefsíðu embættisins og hún sett í loftið 25. mars. Vefsíðan boðar nokkuð breyttar árherslur en auk aðgengilegra og gagnlegra upplýsinga um úrræði embættisins er þar að finna ýmsan ganglegan fróðleik um fjármál einstaklinga. Þá er nú hægt að senda inn beiðni af vefsíðunni og panta símatal, er það von embættisins að sá möguleiki auki enn á aðgengi einstaklinga að þjónustu embættisins. 

Yngsti hópurinn

Þann 25. mars 2019 var haldinn morgunfundur á vegum umboðsmanns skuldara og samtaka fjármálafyrirtækja, fundurinn bar yfirskriftina: Lán unga fólksins, ungt fólk og lánastarfsemi í stafrænum heimi. Tilurð fundarins var m.a. sú fjölgun sem hefur orðið hefur í hópi einstaklinga á aldrinum 18-29 ára sem leita sér aðstoðar vegna fjárhagsvanda hjá embættinu.  Ráðstefnan var mjög vel sótt en á annað hundrað einstaklinga mættu til að hlíða á framsögur og pallborðsumræður. 

Í ársskýrslu embættisins fyrir árið 2018 var gerð nokkuð ítarleg greining á þessum hóp en þar kom fram að á árinu 2018 var þessi hópur  27,5% allra umsækjenda en í lok árs 2019 var sami hópur orðinn 35% allra umsækjenda um greiðsluaðlögun. Það sem einkenndi hópinn að auki var að 77% einstaklinga í þessum hóp voru með það sem embættið hefur skilgreint sem skyndilán. Samsetning hópsins á árinu 2019 er með svipuðu móti og var á árinu 2018.