Fara í efni

Ávarp

Á árinu 2022 færðist starfsemi embættisins smátt og smátt í fyrra horf eftir þær breytingar sem Covid– 19 hafði í för með sér. Byrjað var að taka aftur á móti einstaklingum í ráðgjöf á starfsstöð embættisins en rafræn þjónusta og ráðgjöf í gegnum síma hafa þó fest sig í sessi og hefur það hentað flestum vel að nýta sér þá þjónustu. Símaráðgjöf er raunar í flestum tilfellum fyrsta snerting einstaklinga við embættið. Embættið þjónustar allt landið og leggur áherslu á gott aðgengi en á síðast ári hefur staðið yfir vinna við að bæta enn frekar rafræna þjónustu og mun „mitt svæði“ að væntingu líta dagsins ljós á árinu 2023. Á svæðinu munu umsækjendur geta átt í samskiptum við embættið, móttekið og sent skjöl og fylgst með stöðu umsóknar sinnar.

Á árinu bárust embættinu í heild 727 umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda, en um lítilsháttar fækkun er að ræða frá því 2021.

Embættið leggur mikinn metnað í að greina þann hóp sem aðstoðar leitar hverju sinni. Greiningarvinna embættisins er mikilvæg og gefur vísbendingu um það hvað einkennir þann hóp sem er í mestum vanda í okkar samfélagi hverju sinni. Embættið hefur á síðustu árum vakið athygli stjórnvalda og annarra hlutaðeigandi á þeim vanda sem einstaklingar glíma við. Niðurstöður greiningarinnar nýtast svo til að ákveða hvaða stefna er mörkuð í fræðslumálum og þjónustu embættisins hverju sinni.

Greiningarvinna ársins 2022 leiddi í ljós að stærsti hópurinn sem leitaði aðstoðar vegna fjárhagsvanda voru öryrkjar. Öryrkjar voru 40% allra umsækjenda um aðstoð vegna fjárhagsvanda á árinu. Á síðustu árum hefur öryrkjum sem sækja um aðstoð hjá embættinu fjölgað jafnt og þétt og var þessi hópur til samanburðar aðeins 28% allra umsækjenda árið 2016. Ljóst er af greiningum embættisins að þessi hópur hefur hvað minnst svigrúm til að bregðast við óvæntum útgjöldum, tekjur hópsins hafa m.v. gögn embættisins tekið litlum breytingum til batnaðar. Embættið vakti athygli á stöðu öryrkja á árinu 2022 m.a. á vettvangi Velferðarvaktarinnar.

Samningur við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um áframhald fræðsluverkefnisins Leitin að peningunum var undirritað í október 2022. Stærsti hópur allra umsækjenda um aðstoð vegna fjárhagsvanda hjá umboðsmanni skuldara á árinu 2022 voru öryrkjar. Stór hópur umsækjenda voru einnig einstaklingar í félagslega viðkvæmri stöðu. Markmiðið er að reyna nú að ná til þessara hópa og miðla fræðslu með sérsniðnum upplýsingum um fjármál sem fólk getur speglað sig í. Leitað verður eftir samstarfi við hagsmunasamtök þeirra hópa sem framhaldsverkefnið snýr að. Markmið embættisins í fræðslumálum er að útbúa fræðsluefni sem er aðgengilegt og ókeypis fyrr alla.

Í febrúar 2022 kom út nýr bæklingur um greiðsluaðlögun og er honum ætlað að veita einstaklingum innsýn inn í það ferli sem Greiðsluaðlögun er. Greiðsluaðlögun er mikilvægasta verkfæri embættisins og hefur þjónað einstaklingum í fjárhagserfiðleikum vel á síðustu árum. Eins og ég kom inná hér að ofan þá sýna greiningar embættisins að þróunin hefur verið sú að sífellt fleiri leita til embættisins sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og mikilvægt er að úrræði greiðsluaðlögunar þróist í takt við þarfir umsækjenda og er í því skyni nauðsynlegt að fara í lagalegar umbætur eins og embættið hefur áður vakið athygli á.

Það er von undirritaðrar að sú faglega vinna sem unnin er hjá umboðsmanni skuldara nýtist ekki aðeins þeim sem til okkar leita en einnig þeim sem sem leita upplýsinga um fjármál einstaklinga óháð fjárhagsstöðu og vil ég færa starfsfólki embættisins sérstakar þakkir fyrir sitt framlag bæði til fræðslu og í þjónustu við einstaklinga sem leita aðstoðar embættisins.

Þá vil ég færa Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra góðar þakkir fyrir að taka ákvörðun um styðja áfram við fræðsluverkefnið Leitina að peningunum.