Fara í efni

Ávarp umboðsmanns skuldara

Heimsfaraldurinn hélt áfram að hafa áhrif á árinu 2021, í þeim skilningi að hluta ársins var skrifstofa embættisins lokuð almenningi vegna sóttvarnaraðgerða stjórnvalda. Fjarvinna starfsmanna var mikið nýtt á árinu og gekk það fyrirkomulag vel. Samskiptamáti við umsækjendur er almennt rafrænn eða í gegnum síma og hafði því breytt vinnufyrirkomulag og lokun skrifstofunnar engin teljandi áhrif á þjónustu embættisins. Embættið hyggst jafnframt gera stafræna þjónustu enn betri með því að bjóða upp á sérstakt vefsvæði fyrir umsækjendur, svokallað „mitt svæði“ og er á stefnuskránni að taka það í notkun á næsta ári. Á vefsvæðinu geta umsækjendur átt í samskiptum við embættið, móttekið og sent skjöl og fylgst með stöðu mála.

Á árinu bárust 773 umsóknir um aðstoð vegna fjárhagsvanda, sem er aðeins lægri fjöldi umsókna en á árinu 2020. Má því segja með vissu að áhrif heimsfaraldursins, hafi ekki leitt til aukningar á greiðsluerfiðleikamálum hjá embættinu. Í því sambandi ber að nefna að einstaklingar tilgreina alla jafna ástæður greiðsluerfiðleika í umsókn og hefur embættið því almennt góða yfirsýn yfir hvað hefur leitt til fjárhagsvanda hjá umsækjendum.

Framleiðsla hlaðvarpsþáttanna, Leitin að peningunum, hélt áfram á árinu af fullum krafti en alls voru gerðir X þættir á árinu. Það var virkilega ánægjulegt hvað þættirnir fengu góðar viðtökur en hlustunin hefur verið framar öllum vonum. Fræðslumál skipa mikilvægan sess í starfsemi embættisins og hef ég því lagt áherslu á markvissa hugmyndavinnu um leiðir til að bæta og koma á framfæri fræðslu til almennings, bæði til að efla fjármálalæsi sem og vitund um úrræði embættisins. Markmiðið er að halda áfram að gefa út fræðslu í ýmiss konar formi, hvort sem það eru fræðslumyndbönd, bæklingar, þættir o.fl. Þá er jafnframt mikilvægt að sinna áfram samstarfi við fagaðila sem sinna velferðarmálum og veita þeim stuðning.

Eitt mikilvægasta tól embættisins til úrlausnar á fjárhagsvanda er hið lögbundna úrræði greiðsluaðlögunar sem þarf að mati undirritaðrar að gera nauðsynlegar lagalegar umbætur á. Ljóst er að einstaklingar sem leita til embættisins glíma oft við ýmsar erfiðar félagslegar aðstæður og er mikilvægt að úrræðið þróist í takt við þarfir þess umsækjendahóps. Þá myndi embættið vilja skoða betur hvernig hægt væri að betrumbæta lausnir á fjárhagsvanda, gagnvart kröfuhöfum sem standa utan greiðsluaðlögunar, en það eru alla jafna kröfuhafar ríkisins. Hlutdeild þeirra hefur farið stækkandi og sér embættið mikla þörf fyrir að endurskoðaðar verði lagaheimildir opinberra stofnana varðandi meðferð krafna hjá einstaklingum í fjárhagserfiðleikum.

Ljóst er af skráðum símtölum á árinu, hversu mikilvægan sess símaráðgjöf gegnir hjá embættinu. Einstaklingar geta hringt til embættisins milli 9 og 15 alla virka daga og fengið samband við ráðgjafa. Þá er jafnframt hægt að leggja fram beiðni um að ráðgjafi hringi, á vefsíðu embættisins. Einstaklingar sem hringja eru oft á tíðum að forvitnast um úrræði og aðstoð embættisins en einnig berast margar spurningar um ferli gjaldþrotaskipta, fyrningu krafna, skráningu á vanskilaskrá, fjárnámsferli sýslumanns og margt fleira. Eru einstaklingar almennt mjög þakklátir fyrir að geta fengið svör við almennum spurningum í tengslum við skuldamál.

Að mati undirritaðrar hefur þjónusta embættisins gengið vel á þessu sérstaka ári og færi ég starfsfólki embættisins góðar þakkir fyrir störf sín og sveigjanleika við breytingar á vinnufyrirkomulagi. Þá vil ég færa samstarfsaðilum okkar, sem hafa unnið að hlaðvarpsþáttunum, sérstakar þakkir fyrir frábært samstarf.