Meðal hlutverka umboðsmanns skuldara er að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna.
Embættið hefur lagt rækt við þetta verkefni með ýmsum hætti, svo sem með upplýsingum á heimasíðu og á facebook síðu embættisins og með samskiptum við fjölmiðla um vanda skuldara og um þau úrræði sem í boði eru.
Á síðustu árum hefur embættið staðið fyrir fjölda fræðslufunda fyrir aðra fagaðila sem og hópa einstaklinga. Fræðslan hefur snúið að þjónustu embættisins sem og almennri fræðslu um fjármál.
Árið 2020 var nokkuð frábrugðið en lítið svigrúm hefur verið fyrir fræðslufundi með hefðbundnu sniði.
- Í mars 2020 voru skipulagðir 4 fræðslufundir í heild. Í byrjun mánaðar var haldinn fræðslufundur fyrir
sjálfboðaliða í verkefninu félagsvinir eftir afplánun en verkefnið er á vegum Rauða krossins. - Í samstarfi við þjónustumiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu voru skipulagðir 2 fræðslufundir á námskeiðum á vegum þjónustumiðstöðvar, en námskeiðin sækja einstaklingar sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar.
Aðeins náðist að halda annað námskeiðið áður en samkomubann vegna Covid-19 tók gildi. Þá var áformað að fræðsla yrði venju samkvæmt í samstarfi við Janus endurhæfingu en henni var frestað.
Embættið lagði mikla áherslu á skýrar og leiðbeinandi upplýsingar á vefsíðu embættisins tengdar fjármálum á óvissutímum vegna Covid-19
Þá var tekinn upp rafrænn fræðslufundur fyrir félagsmenn BHM um fjármál og atvinnumissi.
Leitin að peningunum
Á árinu 2020 var haldið af stað með nýtt fræðsluverkefni á vegum embættisins. Verkefnið er unnið með styrk frá Félagsmálaráðuneytinu og er markmið verkefnisins að auka aðgengi ungs fólks að hlutlausri fjármálafræðslu og stuðla þannig að eflingu fjármálalæsis á Íslandi.
Verkefnið hefur fengið heitið Leitin að peningunum.
Í lok október var opnuð vefsíðan Leitin að peningunum www.leip.is og á sama tíma fór í loftið samnefnt hlaðvarp. Verkefnið fór mjög vel á stað og hafa heimsóknir á vefsíðuna verið fjölmargar og hafa kennarar í framhaldsskólum þegar bent nemendum sínum á fræðslumyndbönd sem þar er að finna.
Hlaðvarpsþættirnir hafa fengið afar góðar viðtökur og hafa þættirnir setið ofarlega á lista yfir vinsælustu hlaðvörp landsins. Á dagskrá eru enn fleiri áhugaverðir hlaðvarpsþættir sem og fleiri stutt fræðslumyndbönd.