Fara í efni

Breyting á samningi

Þegar umsjónarmaður leggur til að samningur komist á milli skuldara og kröfuhafa er markmiðið alltaf að samningurinn sé raunhæfur og til þess fallinn að leysa greiðslu- og skuldavanda skuldara. Það er þó aldrei hægt að útiloka að eitthvað komi uppá á samningstímanum sem kemur í veg fyrir að skuldari geti staðið við þann samning sem gerður var.

Ef upp koma ófyrirsjáanlegar aðstæður á samningstímanum sem veikja getu skuldara til að standa við greiðsluaðlögunarsamning sinn getur skuldari óskað eftir því við kröfuhafa að samningnum verði breytt.

Frá árinu 2013 hefur verið unnið eftir verklagi þar sem umboðsmaður skuldara annast milligöngu við kröfuhafa fyrir hönd skuldara, lögin gera þó ráð fyrir að skuldari sinni þessu hlutverki sjálfur. Reynslan hefur sýnt að það er verulega íþyngjandi fyrir skuldara að sinna þessu hlutverki sjálfur og embættið hefur reynst betur í stakk búið til að ná fram sátt um breyttan samning í takt við getu skuldara.