Árið 2020 var fordæmalaust ár hjá landsmönnum og einnig hjá heimsbyggðinni allri vegna heimsfaraldurs er hófst snemma ársins. Árið 2020 var einnig nokkuð viðburðaríkt hjá embættinu og ýmis verkefni unnin með breyttum hætti af frábæru starfsliði embættisins. Ber þá helst að nefna fjarvinnu starfsmanna.
Umboðsmaður skuldara hefur ekki farið varhluta af heimsfaraldrinum eins og aðrar stofnanir samfélagsins og er áhugavert er að líta yfir liðið ár og skoða hvernig starfseminni hefur undið fram.
Embættið breytti skipulagi í starfsemi sinni til þess að minnka líkur á smiti á kórónaveiru í samfélaginu. Þann 12. mars var lokað fyrir komur gesta á starfsstöð í Kringlunni 1 og öll þjónusta færð í símtöl og tölvupóstsamskipti. Fyrirkomulag þetta reyndist einkar vel og ekki urðu teljandi hnökrar á þjónustu við umsækjendur vegna þess.
Árið 2020 var fyrsta heila árið þar sem notast er við nýtt umsóknarferli við móttöku umsókna. Síðla árs 2019 var tekið nýtt fyrirkomulag varðandi umsóknarferlið sem hefur skilað góðum árangri. Fjöldi umsókna á árinu 2020 var nokkuð sambærilegur og árið á undan ef tekið er tillit til breytts verklags. Á árinu bárust samtals 905 umsóknir vegna fjárhagsvanda. Þær voru 1125 árinu á undan.
Má að því liggja að ekki hafi orðið aukning á umsóknum vegna fjárhagsvanda m.a. vegna ýmissa úrræða stjórnvalda til að aðstoða þá sem misstu atvinnu sína eða urðu fyrir tekjulækkun. Einnig voru ýmis úrræði sem litu dagsins ljós sem hafa án efa aðstoðað marga til að halda sjó.
Fræðsla hefur skipað stóran sess í starfsemi embættisins á síðustu árum. Vegna Covid-19 var nokkuð minna um fræðslu með hefðbundnum hætti en þó má segja að embættið hafi nýtt árið einkar vel í fræðslumálum. Farið var af stað með nýtt verkefni sem fékk nafnið Leitin að peningunum.
Í lok október var opnuð vefsíðan Leitin að peningunum www.leip.is og á sama tíma fór í loftið samnefnt hlaðvarp. Verkefnið fór mjög vel á stað og hafa heimsóknir á vefsíðuna verið fjölmargar og hafa hlaðvarpsþættirnir fengið afar góðar viðtökur þeir hafa setið ofarlega á lista yfir vinsælustu hlaðvörp landsins.
Verkefni embættisins eru í stöðugri þróun enda mikilvægt að þjónusta við einstaklinga og fjölskyldur í greiðsluerfiðleikum fylgi þeirri þróun sem á sér stað í samfélaginu. Mig langar að lokum að færa starfsfólki embættisins kærar þakkir fyrir vel unnin störf á sérstökum tímum.